Upphaf KSD á Íslandi

Litli miðinn:
Fyrir 20 árum síðan, árið 2001 var ég með fjölskyldu minni búsett í Malawi í Afríku. Þangað höfðum við komið frá Mósambik þar sem við höfðum verið við þróunarstörf í tæp 3 ár. Núna vorum við í Lilongwe í höfuðborg Malawi og bjuggum samtímis einnig við Malawivatn þar sem Halldór maðurinn minn var að koma upp spítala og vinna samtímis sem læknir. Við höfðum unnið á vegum bæði sænsku og íslensku þróunarstofnunar undanfarin ár. Ég var að vinna að umhverfismálum í Mósambik en var núna mest í Lilongwe þar sem yngsti sonur okkar Sigurþór var í skóla en hann var með í Afríkuævintýrinu. Jafnframt vann ég við skriftir og sem dýaralæknir í hlutastarfi. Skemmtilegast og mest gefandi var samt vinna með götubörn sem ég hafði byrjað á í Mósambik og hélt svo áfram í Malawi.
Dag einn var ég að kaupa mat fyrir fjölskylduna í einu búðinni í Lilongwe sem verslaði með vestrænar matvörur. Fyrir utan búðina var auglýsingartafla þar sem fólk auglýsti hina ýmsu hluti. Það sem vakti athygli mína þegar ég gekk framhjá var lítill krumpaður miði sem á stóð: “Introduction to meditation in the school tonight at 18:00”
Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði séð hugleiðslu auglýsta í Afríku. Ég spurði afgreiðslustúlkuna hvers vegna miðinn væri svona krumpaður og götóttur eins og hann hefði verið festur upp mörgu sinnum. Hún svaraði að það væri ofsatrúarfólk sem kæmi í búðina og rifi alltaf miðann niður, krumpaði hann saman og henti honum á gólfið. Hún færi því reglulega og sléttaði miðann og pinnaði hann upp aftur.
Auðvitað fór ég í skólann og var mætt kl. 6 um kvöldið. Þetta var sami skólinn og Sigurþór okkar gekk í en hann var stærsti grunnskólinn í bænum.
Þar sat Rob Nairn hugleiðslukennari og fyrrverandi prófessor í afbrotarsálarfræði við Háskólann í Cape Town í Suður Afríku.
Hann hafði sagt upp starfi sínu eftir 30 ára starfsferil og gerst hugleiðslukennari í staðinn. Þetta hafði H.H.Dalai Lama ráðlagt honum þar sem hann áleit að Rob myndi ná að hjálpa miklu fleira fólki sem hugleiðslukennari en sem prófessor. Hann flakkaði því um heiminn og kenndi hugleiðslu.
Þarna kynnti Rob fyrir áheyrendum sínum hugleiðsluaðferð sem byggist á núvitund (“Mindfulness”). Aðferð þessi hafði verið notuð af búddamunkum í árhundruð í Tíbet og haldist þar í mjög upprunalegu formi. Hún barst svo með flóttamunkunum yfir til Indlands eftir innrás Kínverja 1950 og þaðan áfram um heiminn. Rob hafði verið mikið á Indlandi og í Skotlandi í Samye Ling (www.samyeling.org) þar sem hann kynntist tíbeskum flóttamunkum sem kenndu þar.
Eftir þessi kynni af núvitundarhugleiðslu frá Tíbet var ekki aftur snúið.
Ég fór á stutt námskeið til að byrja með, bæði í Afríku og svo á Indlandi og í Skotlandi þar sem 2 bræður flóttamunkar fráTíbet; Akong Tulku Rinpoche og Lama Yese Rinpoche ráku stærsta búddaklaustur í Evrópu. Þeir ásamt Rob Nairn hvöttu okkur til að stofna miðstöð á Íslandi sem yrði beint tengd Samye Ling í Skotlandi.
Þegar við svo fluttum heim 2004 hófst undirbúningur að miðsöð sem fékk tíbeska nafnið Kagyu Samye Dzong (á ensku: Tibetan Bhuddist Meditation Centre for World Peace and Health). Íslenska nafnið varð Hugleiðslu-og friðarmiðstöðin. Lama Yeshe Rinpoche kom svo árið 2007 og blessaði starfsemina sem hefur núna verið virk í 17 ár. Árið 20017 bættist við trúfélag: Félag Tíbet búddista sem er opið fyrir þá sem vilja hafa tíbeskan búddisma að sinni trú (sjá www.skrá.is). KSD eða Kagyu Samye Dzong er eins og allar miðstöðvar frá þessari línu búddisma opin öllum, hverrar trúar og af hvaða kynþætti sem fólk er. Allir geta hugleitt og allir geta virkjað sína núvitund. Hér er staður til að þjálfa hvoru tveggja. Sjá: www.hugleidsla.is
Þannig varð lítill krumpaður miði í Afríku orsökin að stofnun Kagyu Samye Dzong í Reykjavík. Afleiðingin af öllu þessu er svo m.a. að þú kæri lesandi ert núna að lesa þessar línur.
Með friðarkveðju
Dagmar Vala Hjörleifsdóttir