Ég vil þakka ykkur öllum.
Stuðningur ykkar með fjárframlögum og orðum hefur veitt bæði innblástur og skilað sér beint í hendurnar á þeim sem þess þurfa.
Fyrir það fjármagn sem þið hafið veitt úkraínskum flóttamönnum hafa verið keyptar bleiur, vatn, kaffi, te, föt, sápur, teppi og matur.

Við erum hópur sem fórum bæði beint á landamærin og stóðum þrjá metra frá Úkraínu þegar straumur af konum og börnum flæddu inn í Pólland, ásamt því að fara á lestarstöðvar og veita aðstoð þar. Þetta var átakanleg lífsreynsla, en stuðningurinn sem við fengum frá ykkur var styrkurinn sem hélt okkur gangandi.
Þetta eru feður okkar og mæður, börn okkar og systkini, makar og ástvinir, að streyma inn til okkar úr myrkrinu. Flest þeirra voru illa klædd. Þessi landamæri voru fyrst og fremst fyrir bifreiðar. Það var 60 km röð af bílum þegar við vorum þarna, en straumurinn af gangandi flóttamönnum um miðja nótt hélt ótrauður áfram , hann stoppaði aldrei. Það hafa verið um 20 til 30 þúsund flóttamenn sem streyma yfir landamærin til Póllands á hverjum einasta degi.
Ég vil þakka ykkur öllum sem hafa haft beint samband við mig og skrifað mér falleg orð. Ég vil þakka ykkur öllum sem hafa veitt okkur stuðning og ánægju að halda þessu starfi áfram þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Það hefur verið heiður að vera fulltrúi ykkar og veita þeim sem eiga um sárt að binda aðstoð og hjálparhönd.
Hægt að sjá framvindu aðstoðar ykkar í myndböndum sem ég setti saman á facebook; hlekkur að þeim er hér að neðan.
Eftir ferð okkar að landamærunum vorum við sjö einstaklingar sem tókum okkur saman og ákvöddum að fara niður á lestarstöð í Poznań, sem er bærinn þar sem ég og konan mín búum. Þar koma lestir beint frá landamærunum og lestarstöðin er einskonar millilending fyrir flóttamenn sem fara til annara þjóða, fyrst og fremst Þýskalands.
Við höfðum keypt nauðsynjar fyrir ykkar framlagi, svo sem vatn, te, kaffi og prins póló. Þegar lestin kom, þá kláraðist þetta allt nema kaffið á innan við 20 mínútum. Við fundum þá annan hóp sem var með samlokur og sat á gólfinu við miðasöluna þar sem flóttamennirnir fengu fría miða áfram til Evrópu. Þar sátum við svo með lítið borð af svölunum okkar og deildum út kaffi; við keyrðum svo heim á milli til þess að sjóða vatn og koma því aftur á lestarstöðina.
Þetta spann svo upp á sig og myndaðist á sama tíma facebook hópur til þess að vakta lestarstöðina, þannig að einhver væri alltaf þarna til staðar til þess að veita hjálparhönd, bros og smá næringu.

Í dag er slökkviliðið komið í þennan hóp, búið að setja upp fjögur stór tjöld fyrir utan lestarstöðina,og um 200 sjálfboðaliðar eru komnir til þess að hjálpa til á daglega. Verið að úthluta flóttamönnunum frí símakort, svo þeir geta hringt heim til ástvina sinna. Dýramatur er til staðar handa gæludýrum. Tengingar við hótel og gististaði svo þeir sem þurfa geti fengið skammtímagistingu áður en lengra var haldið. Það eru margir búnir að taka við flóttamönnum inn á heimili sín, og Pólverjar hafa sýnt þvílíka fyrirmynd og opnað hjörtu sín og heimili.
Við fylgdum þeirra fyrirmynd og opnuðum heimilið okkar fyrir fjórum konum frá Kænugarði, sú yngsta 17 ára. Báðir foreldrar hennar eru að berjast í stríðinu. Sú elsta er 65 ára og hún missti nána vinkonu sína þegar rússneskir hermenn komu að henni þar sem hún var að gefa dýrunum sínum á bóndagarði og drápu hana. Hún og dóttir hennar voru 5 daga á leiðinni til Póllands, þar sem þær fóru í gegnum Ungverjaland. Það var búið að setja svo kallað Bravó hættustig á landamærin, og þær þurftu að fela sig 3 sinnum á leiðinni út af loftárásum. Þær eru enn að tala um óttann.
Ég vil enn og aftur þakka ykkur fyrir þann stuðning og þann heiður sem þið hafið veitt mér, konunni minni og félögum með því að leyfa okkur að vera fulltrúar ykkar í að veita hjálparhönd. Ég hef séð hversu mikið hver króna hefur skipt máli, hvað það fylgir mikill kærleikur að gefa, og hvað eitt bros getur fyllt hjarta manns og lýst upp alla lestarstöðina klukkutímum saman.
Ég er með svo margar óteljandi sögur sem ég mun vonandi koma til ykka smám samanr; ég hef einnig beðið tvær af flóttakonunum að skrifa nokkrar línur fyrir mig sem ég get leyft ykkur að lesa.
Það sem þær hafa þurft að upplifa er eitthvað sem ég vona að enginn þurfi að upplifa; að missa allt sitt, missa ástvini, missa tilveru sína, þurfa að pakka því nauðsynlegasta í bakpoka og yfirgefa allt; ótti um líf sitt og hvort að allt hafi horfið; en einnig fallega vonin um að geta komið aftur,og fundið sinn griðastað á ný.
Ég vona af öllu mínu hjarta að þetta sé skammtímaástand. Ég fyllist af von þegar ég sé kærleikann og móttökurnar sem pólska þjóðin hefur veitt Úkraínumönnum, það er sú von sem hefur veitt mér bjartsýni á mannkynið, því með henni erum við allt; við getum unnið þetta í sameiningu með kærleika. Staðið upp gegn eineltis leiðtogum með sameiningu að vopni og með kærleika komið okkur áleiðis út úr þessu hrottaástandi.
Með kærleikskveðju
Hjörleifur Halldórsson